Fjallað um átak gegn heimilisofbeldi á fundi Kvennanefndar S.þj.
Sextugasta ráðstefna Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna stendur nú yfir í New York. 25 manna sendinefnd frá Íslandi tekur þátt í ráðstefnunni. Á morgun, fimmtudaginn 17. mars, verður þar viðburður á vegum íslenska ríkisins sem ber yfirskriftina „Keep the Window Open“ og fjallar um verkefni sem íslensk stjórnvöld hafa sett í forgang til að sporna við ofbeldi. Á íslensku nefnist verkefnið „Höldum glugganum opnum“ og var það innleitt í fyrsta sinn á Íslandi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum árið 2013. Það felur í sér að rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi er bættar með markvissum fyrstu viðbrögðum lögreglu. Unnið er að því að fækka ítrekunarbrotum, tölfræðivinnsla bætt og aðstoð við þolendur og gerendur gerð markvissari og úrræði eins og nálgunarbann og brottvísun af hemili nýtt betur með það að markmiði að fleiri mál nái í gegnum refsivörslukerfið. Verklagið hefur nú verið tekið upp hjá fleiri lögregluembættum hér á landi, meðal annars á höfuðborgarsvæðinu.
Þátttakendur á viðburðinum á morgun verða Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu ásamt Öldu Hrönn Jóhannesdóttur, yfirlögfræðingi hjá embættinu. Þær tvær síðarnefndu gegndu embættum lögreglustjóra og aðstoðarlögreglustjóra á Suðurnesjum á þeim tíma þegar verkefnið hófst þar. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, rithöfundur, aðgerðasinni og fulltrúi Stígamóta er einnig meðal þátttakenda frá Íslandi.