Fiskurinn ekki genginn á grunnslóð
Síðastliðin vika er búin að vera afskaplega róleg, að sögn Björns Arasonar vigtarmanns á Sandgerðishöfn. Netabátarnir hafa verið að fá lítið og hið sama má segja um togarana og línubátana.Togarinn Haukur var aflahæstur og landaði 82 tonnum sl. fimmtudag. Karfi var uppistaða aflans og eitthvað var af þorski. „Línubátarnir réru aðeins um helgina en það var fremur dræmt hjá þeim. Stafnesið náði 62 tonnum í þremur sjóferðum í síðustu viku og var með þokkalegasta þorsk en þeir fengu hann úti á Boða. Bátarnir sem eru á grunnslóð fá lítið, því svo virðist sem fiskurinn sé ekki genginn“, segir Björn.Flutningaskipið Savastar lestaði 200 tonnum af mjöli frá Barðsnesi á mánudag og Björn á von á öðru flutningaskipi, Scandia, á næstu dögum sem ætlar að lesta loðdýrafóðri frá Skinnfiski. Í næstu viku kemur enn eitt flutningaskipið til að lesta 500 tonnum af fiskimjöli frá Barðsnesi.