Fisktækniskólinn hlaut veglegan menntastyrk
Fisktækniskólinn í Grindavík fékk tæplega 7,6 milljón króna styrk úthlutaðan frá Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlunar ESB á dögunum. Er þetta í þriðja sinn sem skólinn fær úthlutun, en hún hefur aldrei verið hærri en í ár.
Sjö skólar og fræðsluaðilar sem bjóða upp á starfsmenntun fengu samtals 494.441 evrum úthlutað. Alls barst 71 umsókn um styrki að upphæð tæplega 790 m.kr.
Rannís hefur úthlutað rúmlega 400 m.kr. í náms- og þjálfunarstyrki úr menntahluta Erasmus+, mennta- og æskulýðsáætlunar ESB. Fjármagninu var úthlutað til 48 verkefna og ríflega eitt þúsund einstaklingar frá skólastofnunum, fræðsluaðilum og fyrirtækjum njóta góðs af styrkjunum að þessu sinni. Yfir 50% framhaldsskóla og 20% leik-, og grunnskóla á Íslandi hafa frá 2014 fengið styrki úr áætluninni.
Ísland fær árlega um milljarð úthlutað til að styrkja verkefni á sviðum menntunar og æskulýðsmálefna. Markmið áætlunarinnar í menntun eru að ýta undir nýsköpun og þróun á evrópskum menntakerfum, m.a. með því að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnþætti eins og læsi og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvæði nemenda, vinna gegn brotthvarfi, innleiða upplýsingatækni, efla náms- og starfsráðgjöf og almennt efla gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi.