Fisktækniskólinn fái viðeigandi stöðu sem skóli á framhaldsstigi
Bæjaryfirvöld í Grindavík vilja að Fisktækniskóli Íslands í Grindavík fái stöðu sem skóli á framhaldsskólastigi enda sé hann stofnaður á grundvelli laga um framhaldsskóla og framhaldsfræðslu. Fulltrúar Grindavíkur lögðu fram ályktun í þessu veru á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Í henni er hvatning til Alþingis og menntamálaráðherra um að veita skólanum þennan sess. Ályktuninni var vísað til stjórnar SSS.
Fisktækniskóli Íslands var stofnaður af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Grindavíkurbæ, mennta- og fræðsluaðilum á Suðurnesjum og einstaklingum, auk fyrirtækja og stéttarfélaga á Suðurnesjum á sviði fiskeldis, veiða og vinnslu sjávarafla. Nemendur skólans eru 45 talsins af öllum Suðurnesjum.