Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 8. desember 2000 kl. 01:52

Fiskmarkaður Suðurnesja byggir upp fiskmarkað í Brasilíu

Fiskmarkaður Suðurnesja undirritaði sl. fimmtudag fjórhliða samstarfssamning við alríkisstjórnina í Brasilíu, fylkisstjórnina í Rio-fylki og United Projects Developments um uppbyggingu fullkomins fiskmarkaðar og þróun fiskveiða í Rio-fylki.
Fiskmarkaðurinn mun til að byrja með selja fisk af 10 bátum sem fluttir verða til Brasilíu frá Íslandi. Samningurinn kveður á um víðtækt samstarf á sviði sjávarútvegs í Brasilíu, s.s. um fiskveiðar, -vinnslu, -sölu og dreifingu sjávarafurða. Brasilíska alríkisstjórnin kemur að samningnum, ásamt fylkisstjórninni í Rio.
Samningurinn felur í sér að komið verði upp sérstakri starfsaðstöðu fyrir Fiskimarkað Suðurnesja í Rio-fylki. Eins hefur UPD formlega verið úthlutað veiðileyfum fyrir báta sem ætlað er að flytja inn frá Íslandi og hefur Rio-fylki heimilað tollfrjálsan innflutning á tíu bátum, auk þess sem bátunum verður heimilt að gera út skattfrjálst í 18 mánuði til að auðvelda rekstur þeirra. Um er að ræða smábáta, allt að 20 tonnum, og munu þeir landa aflanum hjá Fiskmarkaði Suðurnesja. Bátarnir munu hafa ótakmarkaðn kvóta og er áætlað að þeir hefji veiðar við Brasilíu snemma á næsta ári.
Íslensk-brasilíska þróunarfyrirtækið United Projects Developments hefur haft forgöngu um að koma á samstarfi íslenskra og brasilískra aðila í sjávarútvegi. Magnús Guðmundsson, stjórnarmaður UTD, segir samninginn aðeins þann fyrsta af mörgum sambærilegum sem gerðir verða um samstarf Íslendinga og Brasilíumanna á sviði sjávarútvegs. Þannig séu tilbúin veiðileyfi fyrir stærri skip en enn eigi eftir að ganga formlega frá þeim samningum.

Stefnan að byggja fiskmarkaði í öðrum fylkjum
Ólafur Þór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðs Suðurnesja, segir samninginn kveða á um að FMS leggi til þekkingu til uppbyggingar fiskmarkaðar í Rio-fylki og annist rekstur markaðarins. Stefnan sé síðan að byggja upp markaði í öðrum fylkjum. „Þarna eru gríðarlegir möguleikar að mínu mati. Brasilíumenn eru fremur aftarlega á merinni þegar kemur að fiskveiðum og vinnslu. Gæði fisksins sem þeir veiða nú þegar, eru mjög léleg og við teljum okkur geta kennt þeim mikið í þeim efnum. Við munum gera kröfu um ákveðin gæði aflans af þessum 10 bátum sem fá veiðileyfi við Brasilíu og landa á markaðinn og teljum að þannig fáum við hærra verð fyrir aflann. Vonandi fáum við þá í kjölfarið aðra fiskimenn í viðskipti við markaðinn.“

50 árum á eftir Íslendingum í sjávarútvegi
Noel Carvalho, sjávarútvegsráðherra Rio-héraðs, sagði undirritun samningsins marka
tímamót í sjávarútvegi í Brasilíu. „Eftir að hafa kynnt mér sjávarútveg á Íslandi og þá tækni sem í honum er beitt, gerði ég mér ljóst að Íslendingar eru meðal fremstu þjóða í heiminum á þessu sviði og 50 árum á undan okkur í Brasilíu. Við eigum því margt ólært.
Undan ströndum Rio eru vannýttar auðlindir og því bind ég miklar vonir við að samstarfið við Íslendinga muni færa okkur til nútíma starfshátta í sjávarútvegi. Samningurinn er vonandi upphafið að enn frekara og farsælu samstarfi þjóðanna tveggja,“ sagði Carvalho.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024