Fiskikör hrundu á konu
Lögreglan á Suðurnesjum var í gær kvödd í Voga, þar sem hafði orðið vinnuslys með þeim hætti að fiskikör féllu á konu. Konan hafði verið, ásamt annarri konu, að flokka keilu við vinnuborð þegar kör, full af fiski, sem staflað hafði verið fyrir aftan hana hrundu á hana. Hún kastaðist á vinnuborðið, sem kastaðist aftur á hina konuna sem vann á móti henni. Konurnar voru báðar fluttar með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Meiðsl annarrar þeirra reyndust vera minni háttar en grunur lék á að hin, sú sem fiskikörin féllu á, hafi axlarbrotnað.