Fiskibátur með tvo um borð strandaði í Krossavík
-Losnaði af strandstað og er fylgt til hafnar af björgunarskipi
Fiskibátur á netaveiðum með tvo um borð strandaði í Krossavík, austan við Reykjanestá, í hádeginu í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um strandið klukkan 12:46.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Skömmu eftir strandið losnaði fiskibáturinn af strandstað og gat siglt fyrir eigin vélarafli. Skrúfa bátsins var löskuð en enginn leki hafði komið að honum. Veður var með ágætum og aðstæður góðar.
Björgunarskipið Oddur V. Gíslason og björgunarbáturinn Árni í Tungu héldu til móts við fiskibátinn frá Grindavík og TF-GRO, þyrla Landhelgisgæslunnar, tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 13:00.
Þegar björgunarskipið var komið að fiskibátnum var þyrla Landhelgisgæslunnar afturkölluð. Fiskibátnum er nú fylgt til hafnar í Grindavík af björgunarskipinu Oddi V. Gíslasyni.