Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„First Lego League“ hlaut Hvatningarverðlaun 2017
Alexander Ragnarsson, formaður fræðsluráðs Reykjanesbæjar, Sveinn Ólafur Magnússon, Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, Íris Dröfn Halldórsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir, skólastjóri Myllubakkaskóla.
Fimmtudagur 1. júní 2017 kl. 00:00

„First Lego League“ hlaut Hvatningarverðlaun 2017

Verkefnið „First Lego League“ hlaut í dag Hvatningarverðlaun Reykjanesbæjar 2017, en að því koma Bryndís Guðmundsdóttir, skólastjóri Myllubakka, Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir, Íris Dröfn Halldórsdóttir og Sveinn Ólafur Magnússon. Nemendur úr 7. bekk Myllubakkaskóla sigruðu LEGO-hönnunarkeppni sem haldin var af Háskóla Íslands laugardaginn 12. nóvember sl. Með sigrinum öðluðust nemendur þátttökurétt í úrslitakeppni „First Lego League Scandinavia“ sem haldin var í Bodø í Noregi þann 3. desember síðastliðinn, en þetta er fyrsta lið Suðurnesja sem vinnur þessa keppni.


Alexander Ragnarsson, formaður fræðsluráðs Reykjanesbæjar, sagði á verðlaunaafhendingunni, sem fram fór í Bíósal Duus safnahúsa, að svona afrek vinnist ekki nema með einstökum metnaði, sköpunargleði og frumkvæði metnaðarfulls starfsfólks. „Elja og metnaður þessa starfsfólks Myllubakkaskóla er einstakur og ber að hampa, þeim til viðurkenningar og öðrum til hvatningar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

 


 

Einnig vann til verðlauna verkefnið „Erasmus+“, sem er samstarfsverkefni leikskólans Holts og skóla í Póllandi, Spáni og Slóveníu. Markmið þess er að rýna í lýðræði og læsi með það að markmiði að bæta vinnubrögð og læra nýja hluti.

 

 

Þá var Gyða Arnmundsdóttir tilnefnd fyrir verkefnið „Sérdeildin Ösp“, en hún stóð að stofnun sérdeildarinnar Aspar árið 2002. Önnur verkefni sem hún hefur sett á laggirnar í sérdeildinni eru m.a verkefni er varða sérhæfða lestrarkennslu.

 

 

Að lokum voru tvö verkefni kynnt sem fræðsluráði fannst eiga skilið aukna athygli. En það voru verkefnin „Fjölgreindarval í Njarðvíkurskóla“ annars vegar og „Bókabéus“ hins vegar.

 

Að Fjölgreindarvalinu komu Ásdís Birna Bjarnadóttir, Ebba Lára Júlíusdóttir, Guðrún Lísa Einarsdóttir, Hallveig Fróðadóttir, Hrafnhildur Tyrfingsdóttir, Hulda María Þorbjörnsdóttir, Jóhann Gunnar Sigmarsson, Karen Ingimundardóttir, Katrín Baldvinsdóttir, Laufey Einarsdóttir, Linda Birgisdóttir, Pálína Særós Pálsdóttir, Sigrún Hanna Sveinsdóttir og Vilborg Sævarsdóttir.

 

Í verkefninu skipuleggja kennarar ásamt öðrum starfsmönnum skólans verkefni fyrir nemendur í 1.-4. bekk sem byggir á Fjölgreindarkenningu Gardners. Verkefnið er afurð þróunarverkefnis sem allir kennarar unnu að skólaárin 2014-2016 með það að leiðarljósi að stuðla að fjölbreyttari kennsluháttum.

 

 

Í verkefninu „Bókabéus“ eru tilnefndar Guðbjörg Rut Þórisdóttir og Salvör Gunnarsdóttir. Í verkefninu eru nemendur hvattir til að lesa sérstakar bækur og þjóðsögur. Keppt er í svipuðum stíl og í Útsvari þar sem gerðar eru spurningar upp úr bókunum og nemendur keppa sín á milli.

 


Alexander sagði að mikilvægt væri að við gæfum okkur tíma til þess að verðlauna þá sem leggi meira á sig en til ætlist. „Ég tel að ef við gerum bara örlítið betur á hverjum degi uppskerum við miklu betra samfélag.“


Hópurinn í heild sinni á verðlaunaafhendingunni.