Fingralangur fararstjóri í flugstöðinni
Nýverið komst upp um þjófnað á varningi úr Pure Food Hall versluninni í Flugstöð Leifs Eiríksonar að andvirði tæplega 100 þúsund króna. Þar var á ferðinni erlendur einstaklingur sem var að koma frá Stokkhólmi og var tekinn til skoðunar í grænu hliði. Í farangri viðkomandi var meðal annars frosið kjöt, tvær flöskur af Flóka viskí og 10 glös af selaolíu, samtals að andvirði 91.102 króna.
Ferðalangurinn sem kvaðst vera leiðsögumaður fyrir ferðahópa gat ekki framvísað kassakvittun fyrir vörunum þegar eftir því var leitað. Útskýringar hans á vörslu þessa dýra varnings voru margvíslegar og engar tvær eins.
Starfsmenn tollgæslunnar höfðu því samband við starfsmann verslunarinnar og kom þá í ljós í sjóðsvélum að engin slík sala hefði farið fram á þeim tíma sem passaði við ferðir leiðsögumannsins. Ljóst þótti því að vörurnar væru stolnar og voru þær haldlagðar og skilað aftur í verslunina sem hyggst kæra þjófnaðinn til lögreglu.