Fimmtugasta starfsár Kvennakórs Suðurnesja að hefjast
-Opin æfing miðvikudaginn 13. september
Kvennakór Suðurnesja var stofnaður 22. febrúar 1968 og heldur því upp á 50 ára afmæli á næsta ári. Í tilefni af stórafmælinu verða haldnir glæsilegir tónleikar í Stapa á afmælisdaginn, 22. febrúar 2018, þar sem kórinn, ásamt einsöngvurum og hljómsveit, mun flytja lög og texta eftir Suðurnesjamenn, bæði innfædda og aðflutta. Má þar nefna Rúna Júl, Jóhann Helgason, Magnús Þór, Gunna Þórðar og Ingibjörgu Þorbergs o.fl. auk laga með yngri hljómsveitum eins og Valdimar, Of Monsters and Men og Klassart.
Í næstu viku hefjast æfingar fyrir afmælistónleikana og verður kórinn með opna æfingu í KK-salnum, Vesturbraut 17 – 19, miðvikudaginn 13. september kl. 20 þar sem nýjar konur geta mætt og prófað að syngja með eða bara hlustað og kynnt sér starfið. Í lok æfingar verður Pálínuboð að hætti kórkvenna. Allar konur sem vilja taka þátt í skemmtilegu söngstarfi í góðum félagsskap eru velkomnar á æfinguna. Eina skilyrðið er að geta sungið.
Það er fleira framundan á starfsárinu en stórafmæli, en í vor er ætlunin að fara í söngferðalag til Færeyja og halda þar tónleika þar sem fluttur verður hluti af Suðurnesjaprógramminu af afmælistónleikunum og jafnvel skellt í nokkur færeysk lög.
Það er því skemmtilegt og spennandi ár framundan og tilvalið fyrir konur sem hafa áhuga á söng og vilja vera með í þessu frábæra starfi að mæta á opna æfingu næsta miðvikudag.