Fimmtán ný smit á Suðurnesjum
Alls greindust fimmtán kórónuveirusmit við sýnatöku hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í gær, miðvikudag. Alls voru tekni 371 sýni.
Nú er í gangi átak í örvunarbólusetningum á Suðurnesjum. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er að boða þá einstaklinga í örvunarbólusetningu þar sem liðnir eru sex mánuðir eða lengra frá seinni bólusetningu.
„Við biðjum fólk vinsamlega um að virða tímasetningar á boðunum til að koma í veg fyrir langar biðraðir og örtröð í bílastæði. Tímasetningarnar miða út frá aðstöðunni sem við höfum til að taka á móti fólki. Við viljum endilega bólusetja sem flesta,“ sagði Andrea Klara Hauksdóttir, hjúkrunardeildarstjóri heilsugæslu hjá HSS, við Víkurfréttir í gær
„Þeir sem hafa smitast af Covid-19 eftir tvær grunnbólusetningar eiga ekki að fá örvunarbólusetningu eins og er og viljum við biðja þá einstaklinga að hunsa boðin eða hafa samband á [email protected],“ sagði hún jafnframt.
Ef fólk hefur smitast af Covid-19 eftir fyrri bólusetningu eða án bólusetningar þá þurfa að líða þrír mánuðir áður en viðkomandi getur fengið næsta skammt. Ef einhverjar spurningar vakna er hægt að hafa samband á [email protected] og þeim póstum verður svarað við fyrsta tækifæri.