Fimmtán milljónir króna til Þekkingarseturs Suðurnesja
Bæjarráð Sandgerðis fagnar 15 milljóna króna framlagi ríkissjóðs til „Þekkingarseturs Suðurnesja“ í Sandgerði. Framlagið er mikilvægur stuðningur til eflingar því fjölbreytta rannsóknar-, vísinda- og safnastarfi sem fram fer við Garðveg 1, segir í bóknu bæjarráðs Sandgerðis.
Þar segir einnig að gera þarf samning við Mennta- og menningarmálaráðuneyti vegna framlagsins og formlegrar stofnunar Þekkingarsetursins og undirbúa breytingar sem stofnun þess hefur í för með sér.
Bæjarráð skipar 3ja manna vinnuhóp til þess að vinna að nauðsynlegum verkefnum sem stofnun Þekkingarseturs Suðurnesja í Sandgerði hefur í för með sér. Hópinn skipa: Þjóðbjörg Gunnarsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Guðmundur Skúlason. Leitað verði eftir því að forstöðumenn þeirra stofnana sem starfa á Garðvegi 1, Fræðaseturs, Náttúrustofu Reykjaness, Rannsóknarseturs Háskóla Íslands og BioIce, taki þátt í þessari vinnu. Þá verði jafnframt haft samráð við fulltrúa menntastofnana á svæðinu eftir því sem við á og fulltrúa sveitarfélaganna.