Fimmhundruð sóttu ráðstefnu um flippaða kennslu
Við erum í raun að ýta af stað byltingu í kennslumálum, segir Hjálmar Árnason.
Um 500 manns sóttu ráðstefnu um flippaða kennslu á Ásbrú í dag á vegum Keilis. Skólafólk af öllum skólastigum og m.a. sjö borgarfulltrúar úr Reykjavík sóttu ráðstefnuna.
Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra setti ráðstefnuna. Aðalræðumaður var annar tveggja guðfeðra „flipped classroom“, Jonathan Bergmann. Hann fjallaði um hugmyndir og aðferðir að baki speglaðri kennslu. Hann sýndi hvernig skólar á öllum skólastigum hafa tekið þessa aðferð til menntunar. Að loknum framsögum fór fram hópastarf í húsakynnum Keilis.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi í Reykjavík sagði ráðstefnuna hafa verið mjög vel heppnaða og þetta nýja form væri mjög spennandi í skólastarfinu.
„Við erum í raun að ýta af stað byltingu í kennslumálum. Um þúsund manns úr ýmsum skólum heimsækja Keili vegna þessa janúar til apríl,“ sagði Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis.
Jonathan Bergmann, einn af höfundum flippaðrar kennslu hjá Keili í dag með áhugasömu skólafólki.
Kennarar og skólafólk var mjög ánægt með ráðstefnuna. VF-myndir/pket.