Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimm starfsmönnum sagt upp á Keflavíkurflugvelli
Laugardagur 21. febrúar 2004 kl. 16:24

Fimm starfsmönnum sagt upp á Keflavíkurflugvelli

Fimm starfsmönnum Eftirlits- og stjórnstöðvar á Keflavíkurflugvelli, sem vinnur úr gögnum frá ratsjám, verður sagt upp störfum á næstu dögum vegna niðurskurðar hjá varnarliðinu. Rafiðnaðarsambandi Íslands hefur verið tilkynnt um uppsagnirnar.
Tíu íslenskir starfsmenn hafa unnið í stöðinni á vegum Kögunar, sem er undirverktaki Ratsjárstofnunar. Stofnunin vinnur þar samkvæmt samningi við bandaríska flugherinn. Hingað til hefur varnarliðið greitt fyrir þjónustu sem hefur þýtt að sólarhringsvakt hefur verið í stjórnstöðinni á Keflavíkurflugvelli. Vegna niðurskurðarins mun þjónustan skerðast verulega. Í stað sólarhringsvakta verður aðeins vakt á daginn. Á kvöldin, um nætur og um helgar verður bakvakt. Ratsjárstöðin á Keflavíkurflugvelli er miðstöð íslenska loftvarnakerfisins. Í stöðinni er haldið utan um og unnið úr gögnum um flugumferð sem berast frá fjórum ratsjárstöðvum sem staðsettar eru í landinu. Upplýsingarnar er nýttar af varnarliðinu, sem framsendir þær síðan til Flugmálastjórnar Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Ratsjárstofnun hefur niðurskurðurinn ekki áhrif á rekstraröryggi ratsjárstöðvanna, en frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Ljósmynd/Mats Wibe Lund.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024