Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fimm sinnum meiri fjölgun á Suðurnesjum en annars staðar
Þriðjudagur 22. nóvember 2005 kl. 09:20

Fimm sinnum meiri fjölgun á Suðurnesjum en annars staðar

Á þessu ári hafa verið eða eru 1350 íbúðir í byggingu á Suðurnesjum. Þær munu rúma allt að 3500 íbúa. Þetta kom fram á 28. aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fundurinn var haldinn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja um síðustu helgi.

Á fundinum fluttu sveitarstjórnarmenn erindið Suðurnes í sókn, þar sem uppbygging í nútíð og nánustu framtíð var kynnt. Auk þessara 1350 íbúða sem eru í byggingu eru 3-4000 íbúðir á skipulagsstigi og verða reistar fljótlega.

Miðað við sömu þróun í fjölgun íbúa verða íbúar Suðurnesja komnir yfir 20.000 strax árið 2008.

Í erindum sveitarstjórnarmanna kom fram að vöxturinn í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum er mikill og margfaldur miðað við landsmeðaltal. Landsmeðaltalið er 1% á meðan íbúum Suðurnesja hefur fjölgað um 5% á þessu ári.

Nú er verið að byggja 820 íbúðir í Reykjanesbæ, 130 í Grindavík, 200 í Sandgerði og 100 í Garði og 100 í Vogum.

Lægra fasteignaverð og betri samgöngur eru helstu ástæður fólksfjölgunarinnar á Suðurnesjum. Þar hefur tvöföldun Reykjanesbrautar mikið að segja, en talsvert er um að fólk kjósi að búa á Suðurnesjum en sæki atvinnu til höfuðborgarsvæðisins.

Fasteignaverð á Suðurnesjum er 30-35% lægra á Suðurnesjum en á höfuðborgarsvæðinu. Þá hefur þjónustua sveitarfélaganna allra verið aukin og skólar og leikskólar eru vel í stakk búnir að taka við fjölguninni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024