Fimm milljónasta farþeganum fagnað
Farþegar um Keflavíkurflugvöll það sem af er ári eru orðnir yfir fimm milljónir. Um hádegi í dag var það parið Leanna Cheecin Lau og Gregory Josiah Lue sem komu fjöldanum yfir fimm milljóna múrinn. Starfsfólk Isavia tók vel á móti þeim og fengu þau að gjöf flug frá WOW air, gjafaöskju frá Fríhöfninni, blómvönd auk þess sem veitingastaðurinn Nord á Keflavíkurflugvelli tók á móti þeim með glæsilegri máltíð.
Parið var á leið til Baltimore með Wow Air og þaðan til Los Angeles þar sem þau eru búsett. Leanna og Gregory fara í eina utanlandsferð á ári og ákváðu þetta árið að fara til Íslands í eina viku. Þau voru mjög ánægð með ferðina og skoðuðu meðal annars Jökulsárlón, Gullfoss og Geysi.
Í tilkynningu frá Isavia segir að talning farþega um Keflavíkurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fimm milljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.685.000 brottfararfarþegar, 1.710.000 komufarþegar og 1.605.000 skiptifarþegar. Árið 2015 náði farþegafjöldinn rétt yfir 4,8 milljónir en í ár er búist við að fjöldinn verði um 6,7 milljónir og því verður tvisvar fagnað á þessu ári, bæði nú þegar fimm milljóna múrnum er náð og svo má búast við að fjöldinn fari í fyrsta sinn yfir sex milljónir í nóvember. Fjölgun farþega hefur verið mjög hröð um Keflavíkurflugvöll. Á þessu ári verður fjöldinn samkvæmt spám 37 prósent meiri en árið 2015 og þá mun fjöldinn sem fer um flugvöllinn í ár vera rúmlega þrefalt meiri en árið 2010, þegar hann var rétt yfir tvær milljónir.