Fimm mánaða fangelsi fyrir að stela ilmvatni
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela ilmvatni úr verslun í Reykjanesbæ. Með broti sínu rauf maðurinn skilorð auk þess sem þetta var í fjórða skipti á fáeinum árum sem hann er dæmdur fyrir þjófnað.
Brotið framdi maðurinn í september síðastliðnum og var andvirði ilmvatnsins um 7.500 krónur. Maðurinn játaði brot sitt greiðlega. Hann var í júlí á síðasta ári síðast dæmdur, þá í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir hraðakstur, akstur undir áhrifum vímuefna og þjófnað.