Fimm mánaða á framboðsfundi með mömmu
„Hann hefur farið með mér á tvo Natófundi í útlöndum. Nú skoðar hann landið og miðin með mér á Íslandi,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir sem undirbýr sig fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
Þau mæðgin voru meðal gesta á opnum fundi með Geir Haarde í Njarðvík sl. fimmtudag en Ragnheiður Elín býður sig fram í fyrsta sætið í Suðurkjördæmi. Sonur Elínar er fimm mánaða gamall og heitir Helgi Matthías Guðjónsson. Elín gat reyndar ekki setið í rólegheitum eins og aðrir fundarmenn og hlustað á fyrrverandi forsætisráðherra því Helgi vildi fá athygli móður sinnar sem enn er með drenginn á brjósti.
En að meiri alvöru á fundinum. Geir fór yfir þróun mála undanfarnar vikur og mánuði og sagði það hafa verið óskemmtilega reynslu að vera inn í miðjum mótmælum þar sem ráðist var að þinghúsinu, bílnum hans og fleiri.
„Vinstri grænir voru með beina tengingu við mótmælendur sem fóru allt of langt að mínu mati. Það er hætt við því að það þori enginn annar flokkur annað en að vera með þeim í stjórnarsamstarfi. Annars byrji mótmælin aftur,“ sagði Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins og fráfarandi forsætisráðherra á opnum fundi flokksins í Njarðvík sl. fimmtudag.
Geir sagði lögregluna hafa staðið sig vel í mótmælunum en vitað væri að í mótmælunum hefðu einstaklingar sem hefðu komist í kast við lögin farið mikinn gegn lögreglunni.
Aðspurður sagði hann það ljóst að möguleikar á stjórnarsamstarfi væru ekki með Samfylkingunni eftir kosningar. Það væri full reynt. Samfylkingin væri ósamstæður hópur hinna mörgu fylkinga og ein þeirra hefði tekið völdin þegar formaður flokksins var í burtu vegna veikinda og keyrði í gegn stjórnarslit.
Helgi Matthías brosti og var uppglentur þegar ljósmyndari veitti honum athygli.
Geir Haarde í ræðustól í Sjálfstæðishúsinu í Njarðvík. VF-myndir/pket.