Fimm grunnskólar uppfylla ekki viðmið
Fimm grunnskólar á Suðurnesjum uppfylla hvorki viðmið um sjálfsmatsaðferðir né framkvæmd sjálfsmats um gæði og árangur skólastarfs.
Samkvæmt lögum um grunnskóla á hver og einn þeirra að meta með kerfisbundnum hætti árangur og gæði skólastarfs. Matið á að tengjast markmiðum skólanámskrár og skulu upplýsingar um framkvæmd og umbætur birtar opinberlega.
Af þeim 64 skólum sem skoðaðir voru árið 2008 voru 37 skólar sem ekki uppfylltu viðmiðin. Þeirra á meðal voru fimm grunnskólar á Suðurnesjum en það eru: Akurskóli, Grunnskólinn Sandgerði, Holtaskóli, Myllubakkaskóli og Stóru-Vogaskóli.
Aðeins 17 skólar uppfylltu að fullu viðmið ráðuneytisins. Á meðal þeirra voru þrír skólar á Suðurnesjum en það eru Grunnskólinn í Grindavík, Heiðarskóli í Reykjanesbæ og Njarðvíkurskóli.
Gerðaskóli uppfyllti þessi viðmið að hluta.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef Menntamálaráðuneytisins um úttektir á sjálfsmatsaðferðum í grunnskólum árið 2008.
Hana má lesa hér til nánari upplýsingar
----
VFmynd/elg – Matartími í Heiðarskóla.