Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimm frá Björgunarsveitinni Suðurnes gera sig klára á hamfarasvæðin
Föstudagur 11. mars 2011 kl. 14:03

Fimm frá Björgunarsveitinni Suðurnes gera sig klára á hamfarasvæðin

Fimm meðlimir Íslensku alþjóðabjörgunarveitarinnar úr Björgunarsveitinni Suðurnes eru þessa stundina að gera sig tilbúna til að halda til björgunarstarfa í Japan eftir að gríðarlega öflugur jarðskjálfti upp á 8,9 stig á Richter reið þar yfir í morgun. Allt að 10 metra há flóðbylgja fylgdi í kjölfar skjálftans og eyðileggingin er mikil. Tala látinna hefur haldið áfram að hækka frá því í morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Vegna jarðskjálftans í Japan var Íslenska alþjóðabjörgunarsveitin sett á svokallað vöktunarstig (Monitoring) klukkan 08:05 í morgun. Það felur í sér að stjórnendur sveitarinnar fylgjast vel með ástandinu og því hvort japönsk stjórnvöld biðji um aðstoð frá alþjóðasamfélaginu, sem þau hafa ekki gert. Nú eru 48 alþjóðarústabjörgunarsveitir á þessu stigi en engin sveit hefur verið sett á næsta stig, sem er viðbragðsstig (Stand-by).


Fari svo að sveitin verði send til hjálparstarfa í Japan tekur það hana um fjórar klukkustundir að undirbúa sig og búast má við að flug í skaðalandið taki um 15 klukkustundir.


Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta bíður tilbúin flugvél á Keflavíkurflugvelli til að flytja mannskap og búnað til Japan. Gert er ráð fyrir að flogið verði vestur um haf og yfir Kanada og millilent í Alaska á leiðinni til Japan.


Myndin: Haraldur Haraldsson björgunarsveitarmaður úr Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni gerir sig tilbúinn til fararinnar til Japan í höfuðstöðvum Björgunarsveitarinnar Suðurnes nú rétt áðan. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson