Fimm fluttir á bráðadeild með eitrunareinkenni
Laust fyrir kl. 13 í dag voru tollverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að tollskoða erlendan karlmann sem var að koma til landsins og beindist grunur þeirra að áfengisflösku í fórum mannsins. Þegar færa átti viðkomandi í leitarklefa greip hann flöskuna og grýtti henni í gólfið í leitarsalnum þannig að hún brotnaði. Jafnskjótt gaus upp mjög sterk lykt og fundu starfsmenn fyrir ertingu í öndunarfærum. Tollverðir gerðu lögreglunni á Suðurnesjum þegar viðvart.
Sýni var tekið úr innihaldi flöskunnar og því komið til Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði til efnagreiningar en niðurstaða þeirrar rannsóknar liggur enn ekki fyrir.
Eiturefnadeild Flugvallarþjónustu Keflavíkurflugvallar var kölluð til og var efnið hreinsað upp og svæðinu lokað.
Fimm manns, fjórir tollverðir og rannsóknarlögreglumaður, fóru á bráðadeild Landspítala í Fossvogi með eitrunareinkenni, uppköst, höfuðverk, svima og verki. Líðan þeirra er eftir atvikum.
Maðurinn sem braut flöskuna var handtekinn og er nú í haldi lögreglunnar á Suðurnesjum vegna rannsóknar málsins.
Frekari upplýsingar verða ekki veittar um málið að svo stöddu, segir í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.