Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimm ára markmið Keilis náðust á tveimur árum
Þriðjudagur 12. maí 2009 kl. 10:50

Fimm ára markmið Keilis náðust á tveimur árum

Þann 4. maí sl. voru  liðin tvö ár frá stofnun Keilis, miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs sem hefur aðsetur á fyrrum varnarsvæði bandaríska hersins í Reykjanesbæ sem nú ber nafnið Ásbrú.

Uppbygging skólans hefur gengið hratt en nú stunda tæplega 500 manns nám við skólann. Fastráðnir starfsmenn eru 25 og lausráðnir kennarar eru tæplega 70. Á sjálfu skólasvæðinu búa nú um 2.000 nemar og fjölskyldur þeirra í rúmlega 700 íbúðum sem Keilir hefur til útleigu. Markmið um nemendafjölda og íbúafjölda sem Keilir setti sér til fimm ára hafa náðst á tveimur árum.  

"Það er mjög ánægjulegt að þróun Keilis, sem miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs hefur gengið hraðar fyrir sig en við þorðum að vona", segir Árni Sigfússon sem er formaður stjórnar Keilis. „Við vorum heppin með sterka stjórnendur til að fylgja verkefnunum eftir og gott samstarf við Kadeco, Háskólavelli og fyrirtækin  á svæðinu hefur reynst okkur afar mikilvægt. Uppbyggingu er hvergi lokið því nú eru heilsuverkefnin að fara í gang og orkurannsóknasetrið er í hraðri uppbyggingu".

Námsframboð er fjölbreytt en nú er tekið við umsóknum  í  11 námsleiðir fyrir nám á haustönn 2009. Það eru Háskólabrú, Háskólastoðir, einka- og atvinnuflugmannsnám, flugfreyju/þjónanám, flugumferðarstjórn, ÍAK einka- og íþróttaþjálfarnám, frumkvöðlanám og nýtt háskólanám í orkutæknifræði og mekatróník tæknifræði sem unnið er í samstarfið við Háskóla Íslands. Í undirbúningi er meðal annars nám í flugvirkjun, flugrekstarstjórn og sjúkraflutningum. Þá er Keilir með í undirbúningi mikið samstarf við innlenda og erlenda aðila um ýmsar menntaleiðir, m.a. í flugtengdu námi, á sviði heilsueflingar og  á orkusviði.

Námsmönnum standa til boða rúmgóðar íbúðir á mjög hagstæðu verði og innifalið í leiguverði eru rútuferðir til og frá höfuðborgarsvæðinu og nettenging. Á svæðinu hafa á undangengnum tveimur árum ýmis þjónustufyrirtæki hafið starfsemi.  Má þar nefna veitingastaðinn Langbest, verslun Samkaupa, hárgreiðslustofuna Fima fingur og skemmtistaðina Top of the rock og Officeraklúbbinn. Í Eldey, frumkvöðla – og orkusetri Keilis, NMÍ, KADECO og HÍ, starfa nú átta frumkvöðlafyrirtæki. Tveir leikskólar eru á svæðinu auk grunnskóladeildar. Fjörheimar félagsmiðstöð unglinga, tómstundatorg með innileikvelli og línuskautahöll gera svæðið að ákjósanlegum stað fyrir fjölskyldufólk.  

Keilir byggist upp á fjórum  mismunandi skólum auk Háskólabrúar, þar sem undirbúningsnám fyrir háskólanám fer fram; Heilsu- og uppeldisskóla, Orku- og tækniskóla, Samgöngu- og öryggisskóla og Skóla skapandi greina. Hver þeirra hefur sínar áherslur í samræmi við markmið Keilis að byggja á mikilvægi alþjóðaflugvallar og umhverfisvænum auðlindum en jafnframt að nýta þá þekkingu sem er til staðar í nærumhverfinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024