Fimleikahús með gryfju
Framkvæmdir við breytingar á húsakynnum Íþróttaakademíunnar eru langt á veg komnar en húsið hefur fengið það hlutverk að hýsa starf Fimleikadeildar Keflavíkur. Ef einhver skyldi halda að þetta á myndinni sé sundlaug, þá er það misskilningur. Gryfja af þessu tagi ku vera nauðsynleg í alvöru fimleikahúsum. Hún verður fyllt með dýnum og öðrum búnaði til að auka öryggi iðkenda en yfir svona gryfjum eru t.d. gerðar æfingar á tvíslá, stökkæfingar og loftköst allskonar sem tilheyra íþrótt þessari.
Kostnaður við gryfjuna er um 12 milljónir króna fyrir utan búnað en eftir áramót koma hingað danskir sérfræðingar til að setja hann upp. Áætlað er að framkvæmdum verði lokið um miðjan janúar á nýju ári.
---
VFmynd/elg