Fíkniefni fundust við húsleit
Fíkniefni fundust við húsleit sem Lögreglan á Suðurnesjum gerði í íbúðarhúsnæði í umdæminu í fyrrinótt. Þau fundust á baðherbergi og játaði húsráðandi að hann ætti efnin. Hann var handtekinn og færður á lögreglustöð.
Þá komu upp nokkur vörslumál til viðbótar þar sem smáskammtar af efnum fundust hjá ökumönnum eða farþegum í bifreiðum sem stöðvaðar voru við hefðbundið eftirlit. Fóru menn misjafnar leiðir til að reyna að fela fíkniefnin fyrir lögreglu. Til dæmis hafði einn, sem færður var á lögreglustöð, komið kannabisefnum fyrir milli fóta sér.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-500. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.