Fíkniefnasali ók án réttinda
Lögreglan á Suðurnesjum hafði á síðustu dögum afskipti af konu á þrítugsaldri, sem reyndist hafa nokkurt magn af fíkniefnum á heimili sínu. Þar fundust einnig umbúðir til pökkunar fíkniefna, svo og meintir skuldalistar. Konan játaði sölu fíkniefna. Daginn eftir stöðvuðu lögreglumenn, við umferðareftirlit, akstur sömu konu. Aðspurð um ökuskírteini kvaðst hún ekki hafa það meðferðis, þar sem hún væri svipt ökuréttindum. Hún viðurkenndi jafnframt neyslu fíkniefna. Þá haldlagði lögreglan á Suðurnesjum lítilræði af fíkniefnum, sem fundust við húsleit hjá annarri konu.