Fíkniefnasali handtekinn
Lögreglan á Suðurnesjum handtók fíkniefnasala um síðustu helgi og lagði hald á nokkurt magn af fíkniefnum. Við húsleit, að fenginni heimild, fundu lögreglumenn á annað hundrað grömm af kannabisefnum. Tveir voru handteknir á staðnum en þeir höfðu verið að kaupa þar fíkniefni.
Á öðrum stað var húsráðandi handtekinn en í híbýlum hans fundust meint kannabis og amfetamín. Þá handtók lögreglan einstakling, innan við tvítugt, sem var með fíkniefni í fórum sínum. Málið var tilkynnt til barnaverndar vegna ungs aldurs.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.