Fíkniefnasali handtekinn
Lögreglan á Suðurnesjum handtók um síðustu helgi ökumann sem reyndist hafa neytt amfetamíns, metamfetamíns og kannabisefna, að því er sýnatökur á lögreglustöð staðfestu. Hann reyndi að koma poka með tugum gramma af kannabis undir sætið þegar lögreglumenn ræddu við hann. Í bifreiðinni voru fjórir farþegar og voru þeir sjáanlega undir áhrifum fíkniefna og því einnig handteknir vegna fíkniefnamisferlis. Við öryggisleit á einum þeirra fundust um 25 grömm af kannabis til viðbótar sem viðkomandi hafði falið innan klæða.
Ökumaðurinn játaði eign sína á efnunum og jafnframt sölu og dreifingu fíkniefna.
Annar aðili, sem lögregla hafði afskipti af var með kannabis í fórum sínum og einnig á heimili sínu.
Loks haldlagði lögregla kannabis í bakpoka sem fannst við húsleit, að fenginni leitarheimild, í íbúðarhúsnæði í umdæminu. Einnig var í pokanum kvörn sem notuð hafði verið til að mylja kannabisefni.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005800-5005. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.