Fíkniefnahundurinn sýndi einum áhuga

Svo sem venja er til fóru lögreglumenn með fíkniefnaleitarhund til eftirlits á nýnemaballi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í síðustu viku, enda um lið í mikilvægu forvarnarstarfi að ræða.

Fíkniefnahundurinn sýndi einum einstaklingi í húsinu áhuga og var viðkomandi færður á lögreglustöð. Við leit, sem hann heimilaði, fannst lítilræði af tóbaksblönduðu kannabisefni.

Tekin var framburðarskýrsla af viðkomandi og var hann síðan frjáls ferða sinna.

Ekki er unnt að veita frekari upplýsingar um málið að því er fram kemur hjá lögreglunni á Suðurnesjum en samkvæmt heimildum VF var einstaklingurinn ekki nemandi í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.