Fíkniefnaakstur: Keyra undir áhrifum þrátt fyrir ströng viðurlög
-90 mál frá áramótum
Vart hefur farið framhjá neinum sú mikla aukning sem hefur orðið á kærum vegna fíkniefnaaksturs, eða aksturs undir áhrifum fíkniefna, í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum það sem af er ári.
Til dagsins í dag, 26. mars, höfðu 90 slík tilvik komið til kasta lögreglunnar, þar af 41 í marsmánuði einum. Það er gríðarleg aukning frá fyrri tíð svo ekki sé meira sagt, en þrátt fyrir mikla umræðu virðist ekki vera að draga úr tilfellum, nema síður sé.
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögregluembættinu á Suðurnesjum, segir í viðtali við Víkurfréttir að lögregla hafi unnið markvisst að málum tengdum fíkniefnaakstri undanfarið.
„Við höfum bæði lagt mikla áherslu á þessi mál og fengum líka í lok síðasta árs tæki sem gefur strax svörun um það hvort fíkniefni finnist í viðkomandi og það förum við í mál. Umferðarlögin eru skýr hvað þetta varðar.“
Skúli segir að málin séu misalvarleg þar sem menn eru allt frá því að vera greinilega undir áhrifum allt að því að vera etv. þekktir af notkun fíkiefna og séu þess vegna teknir í próf sem svo gefi jákvæða svörun.
Viðurlög við fíkniefnaakstri voru þyngd verulega ekki alls fyrir löngu og liggur nú þriggja mánaða svipting ökuleyfis og 70.000 kr. fjársekt við fyrsta broti. Er þá miðað við lítið magn fíkniefna í blóði viðkomandi, en ef mikið magn finnst getur svipting verið allt að 12 mánuðir og fjársekt að 140.000. Er þá, sem fyrr sagði, miðað við fyrsta brot en við ítrekunarbrot geta refsingar orðið mun þyngri. Auk þess er öllum kærðum gert að standa fyrir sínu máli fyrir dómi.
Ekki er að sjá að það hafi mikil áhrif á suma því sem dæmi hefur einn og sami maðurinn verið tekinn þrisvar frá áramótum og kærður fyrir fíkniefnaakstur.
„Breytingin á umferðarlögunum breytti miklu fyrir okkur því að nú er unnið eftir „Zero Tolerance“-stefnu og þá þarf ekki lengur mat læknis á hæfni til akstur eins og áður. Það gildir að vísu enn um akstur undir áhrifum annarra lyfja,“ segir Skúli að lokum.
„Vonandi nær þetta að skila sér til þessa fólks því við erum að senda út skýr skilaboð: „Ef þú ert að neyta fíkniefna áttu ekki að vera að keyra!“ Þó svo að þú eigir að sjálfsögðu ekki að neyta fíkniefna yfir höfuð.“