Fida tilnefnd til The International European Female Inventor or Innovator 2015
-hreykin að vera viðurkennd
Fida Abu Libdeh framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins GeoSilica hefur verið tilnefnd til verðlaunanna The International European Female Inventor or Innovator Of the Year 2015 sem veitt verða á ráðstefnu Global Women Inventors & Innovators Network GWINN í London þann 13. október nk.
Ráðstefnan er nú haldin í fimmta sinn og er eingöngu fyrir konur í nýsköpun um allan heim. Alls hafa 120 konur frá ýmsum löndum og með fjölbreyttan bakgrunn hlotið viðurkenningu og verðlaun samtakanna.
„Ég er hreykin og stolt að vera viðurkennd og fá vinnuna mína metna. Þetta er frábært tækifæri til að kynna GeoSilica og öflugt starf kvenna á Íslandi á erlendum vettvangi, enda hefði ég ekki verið tilnefnd án þeirra”, segir Fida sem stofnaði sprotafyrirtækið GeoSilica árið 2012 ásamt Burkna Pálssyni og Ögnum ehf. Fyrirtæki þeirra starfar í Eldey frumkvöðlasetrinu á Ásbrú en það varð til í framhaldi af lokaverkefni þeirra í orku- og umhverfistæknifræði í Keili. Geosilica framleiðir náttúrulegt kísilsteinefni í vökvaformi og kom fyrsta vara þeirra á markað árið 2014 og eru starfsmenn í dag fimm talsins.
Víkurfréttir völdu Fidu Suðurnesjamann ársins 2014 en hún kom til Íslands 16 ára gömul frá Palestínu og glímdi um skeið við erfiðleika í námi vegna tungumálaörðugleika og lesblindu. Það breyttist eftir að hún hóf nám í háskólabrú Keilis og lauk hún þriggja ára háskólanámi í orku- og umhverfistæknifræði. Hún lét ekki þar við sitja og hefur lokið MBA námi frá Háskólanum í Reykjavík samhliða rekstri sprotafyrirtækis en hún og maður hennar Jón Kristinn Ingvason eiga þrjú börn og búa á Ásbrú.