Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ferskir vindar og Reynir hlutu verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi
Mireya Samper frá Ferskum vindum og Reynir Sveinsson með Þekkingar- og Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum. Verðlaunagripir sem þau fengu voru hannaðir af Línu Rut listakonu sem búsett er í Keflavík. VF-mynd/pket.
Miðvikudagur 2. mars 2016 kl. 11:51

Ferskir vindar og Reynir hlutu verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi

Listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlaut Hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi 2016 og Reynir Sveinsson leiðsögumaður og ljósmyndari úr Sandgerði hlaut Þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar. Þetta er í fyrsta skipti sem verðlaunin eru afhent en það var gert á vetrarfundi Markaðsstofu Reykjaness í Hljómahöll í morgun. Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness stóðu að útnefningunni.

Ferskir vindar í Garði er einstakur viðburður sinnar tegundar og eru hugmynd Mireyu Samper sem einnig er umsjónarmaður þeirra. Þegar sólin er lægst á lofti hér á norðurhveli jarðar og dagurinn er stystur mæta í Garðinn fjöldi listafólks úr öllum listgreinum og af mörgum þjóðernum. Markmið þeirra er að kynnast landi, þjóð og hvert öðru en ekki síður að verða fyrir áhrifum náttúrunnar og samfélagsins og skilja eftir sig spor í formi sköpunar. Listafólkið dvelur og vinnur í Garði. Það miðlar til samfélagsins þekkingu sinni og fagmennsku í listum á fjölbreyttan hátt. Ferskir vindar hafa vakið mikla athygli bæði innanlands og ekki síður erlendis og fjallað hefur verið um hátíðina í erlendum fjölmiðlum, þar á meðal í franska fjölmiðlinum Arte sem sérhæfir sig í umfjöllun um listir og menningu.  Í þeirri umfjöllun var fjallað um Garðinn og Suðurnesin.  Augljóst að ímynd Garðs og Suðurnesja mótast í hugum margra af þeirri menningu og listum sem Ferskir vindar standa fyrir.  Mireya sagði í stuttu spjalli við Víkurfréttir að útlendingar sem kæmu á Ferska vinda væru uppnumdir yfir umhverfinu í Garði og Reykjanesinu. „Það er skemmtilegt og magnað að hlusta á fólkið og lesa umsagnir þess til okkar um svæðið,“ sagði Mireya.

Sandgerðinginn Reyni Sveinsson ættu allir að þekkja sem að starfað hafa í ferðaþjónustu á Reykjanesi. Hann hefur lengi verið rödd svæðisins, bæði sem formlegur og óformlegur talsmaður Sandgerðinga en ekki síður sem áhugamaður um ljósmyndun. Myndir hans hafa þannig borið hróður svæðisins víða. Í bæjarstjórn tók Reynir þátt í því að stofna Fræðasetur í Sandgerði. Hann tók við stöðu forstöðumanns þar árið 1999 og gegndi þeirri stöðu til 2012. Þrátt fyrir að hafa látið af þeirri stöðu starfar hann þar enn og tekur á móti þúsundum gesta ár hvert. Fimm árum áður en Reynir tók við starfi forstöðumanns, eða árið 1994, settist hann í stjórn Ferðamálasamtaka Suðurnesja þar sem hann sat til ársins 2012 eða í 18 ár. Þá var hann fyrsti formaður stjórnar Markaðsstofu Suðurnesja þegar hún var stofnuð árið 2009. Þá er Reynir vinsæll leiðsögumaður og svæðisleiðsögumaður. Stjórnir Reykjanes UNESCO Global Geopark og Markaðsstofu Reykjaness eru sammála um að Reynir sé vel að því kominn að hljóta fyrstur manna þakkarverðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi, segir í tilkynningu.

„Ég krydda allar mínar ferðir með mannlífssögum en segi minna frá hrauninu sem hefur verið hér í langan tíma. Hvalsneskirkja og Hallgrímur Pétursson er þó það sem fólk spyr mest um og sýnir mestan áhuga,“ sagði Reynir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þuríður Aradóttir og Eggert Sólberg frá Markaðsstofu Reykjaness á vetrarfundinum í Hljómahöll. Þar voru flutt áhugaverð erindi um stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi og ímynd Reykjaness.