Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fermetrum í viðbyggingu fækkar í hvert skipti sem nýjar teikningar koma
Sunnudagur 6. október 2024 kl. 06:00

Fermetrum í viðbyggingu fækkar í hvert skipti sem nýjar teikningar koma

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 28. september 2024 hvetur ríkisvaldið til að hefja viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í takt við íbúafjölgun á Suðurnesjum. Þegar byggt var við skólann síðast 2004, þá var íbúafjöldinn á Suðurnesjum 17.090. Í september var íbúafjöldinn í Reykjanesbæ einum 24.120. Þann 1.september 2024 var íbúafjöldi á Suðurnesjum 31.849. Þetta kemur fram í ályktun sem var lögð fram á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um síðustu helgi.

Því lætur nærri að íbúafjöldinn á svæðinu hafi tvöfaldast síðan síðast var byggt við skólann. Rétt er að hafa í huga að hlutfall nemenda sem sækja um nám í framhaldsskóla hefur hækkað frá því sem var 2004 og því eru sífellt fleiri úr hverjum árgangi sem sækja um skólavist. Hlutfall nemenda af erlendum uppruna er einnig hátt á svæðinu og þeir sækja eðlilega líka um skólavist Suðurnesjum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þann 6. apríl síðastliðinn mættu bæjarfulltrúar frá Reykjanesbæ, Vogum og Suðurnesjabæ ásamt mennta- og barnamálaráðherra, á undirritun um viðbyggingu Fjölbrautaskólans á Suðurnesjum. Samningurinn hljóðaði upp á viðbyggingu við skólann upp á allt að 1900 m².

Þegar aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum er haldinn þann 28. september hafa liðið alls 25 vikur frá undirrituninni eða hálft ár. Eitthvað hefur þokast í málinu en þó yfirleitt aðeins það að sendar eru inn nýjar teikningar þar sem fermetrum fækkar í hvert skipti.

Teikningar af nýju viðbyggingunni eins og sakir standa í dag eru alls 1.800 m² sem er á engan hátt að endurspegla þarfir skólans þar sem áskoranir snúa meðal annars að mjög miklum fjölda nemenda, að miklum fjölda nemenda sem hafa ekki íslensku að móðurmáli, að verulegri þrengingu að verknámsaðstöðu en auk þess hefur skólinn tekið að sér nemendur sem voru áður í menntaskólanum við Ásbrú auk brauta sem sneru að einkaþjálfun og styrktarþjálfun.

Svo virðist vera að Excel skjöl ríkisins skilgreini stækkun verknámsaðstöðu um allt land sem heildarfermetrafjölda og deila þannig niður fermetrum milli svæða, sem verður að teljast virkilega sérstök aðferð við að skipuleggja stækkun aðstöðu ólíkra skóla.

Aðalfundur S.S.S. skorar á ríkisvaldið að hefja viðbyggingu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja í samræmi við þarfir hans, sem fyrst svo ekki líði aðrar 25 vikur án þess að nokkuð gerist í verkefninu, segir í ályktuninni.