Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fermetraverð á Suðurnesjum hækkar minnst
Föstudagur 30. október 2015 kl. 16:45

Fermetraverð á Suðurnesjum hækkar minnst

- Íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 29% á áratug

Samkvæmt greiningu Íslandsbanka á íslenskum íbúðamarkaði sem út kom í þessari viku hefur íbúðaverð á landinu frá árinu 2010 hækkað minnst á Suðurnesjum eða um 4,5 prósent. Á tímabilinu hefur íbúðaverð hækkað mest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 40,2 prósent og á Vestfjörðum þar sem verðið hefur hækkað um 36,5 prósent. Sé aðeins miðað við fyrstu þrjá ársfjórðunga þessa árs hefur íbúðaverð hækkað mest á Vestfjörðum eða um 19 prósent. Hækkunin á þessu ári var aftur á móti minnst á Suðurnesjum og á Norðurlandi, eða 5 prósent í báðum landshlutum. 
 
Dýrustu fjölbýlin á Suðurnesjum eru í Njarðvík en þar var fermetrinn seldur á um 175 þúsund krónur á árinu 2014. Ódýrustu fjölbýlin eru í Grindavík þar sem fermetrinn seldist á 134 þúsund krónur á síðasta ári. Verð í fjölbýli á Suðurnesjum lækkaði í öllum bæjarfélögum, að Grindavík undanskilinni, frá árinu 2010 til ársins 2014. Í Grindavík hækkuðu fjölbýli um 1,5 prósent yfir tímabilið. Ódýrustu fjölbýlin eru í Sandgerði. Þar seldust fjögur slík á árinu 2014 og var fermetraverðið að meðaltali 98 þúsund krónur.
 
Sérbýlin eru einnig dýrust í Njarðvík en þar nam fermetraverðið á síðasta ári 164 þúsund krónum. Næst dýrustu sérbýlin eru í Keflavík þar sem fermetraverðið nam 161 þúsund krónum. Ódýrustu sérbýlin eru í Sandgerði og í Garði, þar sem fermetrinn er á um 120 þúsund krónur. 
 
Undanfarinn áratug hefur mesta fólksfjölgunin á landinu átt sér stað á Suðurnesjum eða um 29 prósent. Næst mest hefur fjölgunin verið á höfuðborgarsvæðinu eða um 15 prósent.
 
Greiningu Íslandsbanka í heild sinni má lesa hér.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024