Ferðum strætó fækkar og enginn helgarakstur
Breytingar verða á þjónustu almenningsvagna Reykjanesbæjar, sem daglega kallast strætó, og mun þessi breyting taka gildi um næstu áramót. Áhersla er lögð á að sá hluti kerfisins sem sér um að koma börnum í og úr skóla er óskertur.
Hins vegar er þjónustan á Ásbrú bætt svo og tengingar við Dalshverfi 2 og er nú þjónustan við þessi hverfi komin á sama þjónustustig og önnur hverfi.
Utan aksturs að morgni og eftir skóla verður ekið á klukkutíma fresti í stað 30 mínútna áður í Njarðvíkur- og Keflavíkurhverfi. Þá verður síðasta ferð um 18:30 í stað 20:30 nú. Hætt verður með helgarakstur en sumarakstur heldur sér en þó með betri þjónustu á Ásbrú og í Hafnir. Ekki verður þörf á að breyta þeim akstursleiðum, heldur er hér einungis um tíðni ferða að ræða.
„Við leggjum áherslu á að halda kerfinu eins og það er búið að byggja það upp að undanförnu, þannig að þegar betur árar getum við bætt þjónustuna án mikils tilkostnaðar. Þessar hagræðingar eru gerðar á grundvelli mælinga og notkunar þessarar þjónustu,“ segir Guðlaugur H. Sigurjónsson hjá Umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar í samtali við Víkurfréttir. Hann sagði jafnframt að nauðsynlegt hefði verið að fara í þessa hagræðingu til að ná fram sparnaði í rekstri Reykjanesbæjar.