Ferðaþjónustan verður helsti vaxtarbroddurinn
Hagur ferðaþjónustunnar hefur vænkast hratt og er útlitið gott í þeim geira. Spáð er 1,7 milljónum ferðamanna til landsins á þessu ári og tveimur milljónum á næsta ári. Fjöldinn verður þá orðinn svipaður og var fyrir sex árum þegar mest var. Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi Íslandsbanka í Hljómahöll nýlega.
Í máli sérfræðinga Íslandsbanka kom fram að útlit sé fyrir að ferðaþjónustan verði helsti vaxtabroddur útflutningstekna þjóðarinnar á næstunni.
Fundur Íslandsbanka var vel sóttur og fróðleg erindi á boðstólnum. Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri bankans opnaði fundinn, en Sighvatur Ingi Gunnarsson útibússtjóri var fundarstjóri.
Efnahagur í aðlögun
Jón Bjarki Bentsson og Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingar í greiningardeild bankans fóru yfir það helsta í nýrri þjóðhagsspá bankans. Þannig er því spáð að verðbólga hafi náð hámarki og lækki með hægari hækkun á íbúðaverði og stöðugra innflutningsverðlagi. Spenna verður áfram á vinnumarkaði og því spáð að kaupmáttur launa vaxi á nýju ári. Spáð er að stýrivextir fari í allt að sex prósent fyrir árslok en fari svo hægt lækkandi frá miðju ári 2023.
Íbúðaverð mun kólna allhratt á næstu mánuðum samkvæmt spá Greiningar Íslandsbanka en verði vonandi komið í jafnvægi um mitt næsta ár. Spáð er 11,6% hækkun íbúðaverðs á þessu ári sem er að mestu komin fram og raunverðshækkun á næsta ári verði um 0,8%. Spá bankans í heild sinni má nálgast á heimasíðu bankans, islandsbanki.is.
Vöxtur hjá Blue Car Rental
Á fundinum fór Magnús Sverrir Þorsteinsson, forstjóri Blue Car Rental, yfir rekstur félagsins undanfarin ár. Í dag er Blue Car Rental með um 2.500 bíla í rekstri og er því ein sú stærsta á landinu. Um hundrað manns starfa hjá félaginu á fimm starfsstöðvum, í Reykjanesbæ og í Reykjavík.
Félagið rekur viðgerða- og þjónustuverkstæði ásamt dekkjaverkstæði, sprautuverkstæði og rúðuverkstæði. Í vor var svo opnuð ný þvottastöð við Blikavelli en félagið tekur á móti vel yfir 100.000 ferðamönnum á hverju ári.
Fram kom í máli Magnúsar Sverris að Blue Car Rental skilgreini sig sem stórfyrirtæki í ferðaþjónustu enda hafi mikil sérþekking myndast hjá félaginu. Félagið hafi skapað sér skýra sýn á hvað það vill standa fyrir. Þar er viðskiptavinurinn settur í fyrsta sæti, en til marks um það hafi fyrirtækið meðal annars fjárfest gríðarlega í snertilausum- og stafrænum lausnum til að hámarka jákvæða upplifun viðskiptavina.
Covid-19 gerði félaginu erfitt fyrir og fór Magnús yfir þær fjölmörgu áskoranir sem félagið stóð frammi fyrir í mjög flóknu rekstrarumhverfi. En þrátt fyrir erfið ár var Magnús bjartsýnn á komandi tíma, sér í lagi í ljósi spá Greiningar Íslandsbanka um fjölgun ferðamanna á næsta ári.