Ferðamönnum fjölgað um rúmlega 35% frá síðasta ári
Helga Ingimundardóttir hjá Upplýsingarmiðstöð Reykjaness segist hafa orðið var við mikla aukningu ferðamanna á Reykjanesi nú í ár. Mun meira sé um að íslenskir ferðamenn komi á svæðið en þó sé meginþorri ferðamanna af erlendi bergi brotinn. Samkvæmt mælingum sem þau gera árlega hefur ferðmönnum fjölgað um 35% frá því á síðasta ári.
Bláa lónið er ávallt vinsælast meðal gesta hér á svæðinu en Helga segir að heimsókn á Reykjanestána sé sífellt að verða vinsælli. Þar getur að líta Gunnuhver og brúna milli heiimsálfanna og auk þess er vinsælt að skoða útsýnið út yfir Eldey frá Valahnúk.
Helga segir vinsælt meðal ferðamanna að ganga frá Grófinni alla leið ínn að Stapa í Innri-Njarðvík og gjarnan er hægt að sjá hvali og ýmislegt fróðlegt á þessari gönguleið. Margir ferðamenn nýta sér einnig þann kost að ókeypis er í strætó hér á svæðinu og þegar fólk stoppar hér daglangt þá ferðast það oftar en ekki um svæðið á strætó, allt frá Höfnum og til Garðs og Sandgerðis.
Upplýsingamiðstöð Reykjaness er hlutlaus upplýsingamiðstöð sem býður íbúum og ferðamönnum upp á ókeypis þjónustu, þar liggja frammi allir helstu ferðabæklingar sem gefnir eru út á Íslandi. Á Upplýsingamiðstöðinni sem er til húsa í Krossmóa er hægt að bóka gistingu og alla afþreyingu um allt land.
Jónas Óskarsson eigandi Gistihúss Keflavíkur tekur undir með Helgu og segir um 40% aukningu hafa orðið á gistinóttum hjá sér í ár og það hafi verið vitlaust að gera frá því í maí. Hann hefur verið í þessum bransa í 11 ár og þar af þrjú ár á Ásbrú og sífellt sé aukning á gestum ár frá ári. Hann segir ferðamenn í langmestum mæli fara í Bláa lónið og að kynna þurfi fyrir fólki hvað sé annað í boði á svæðinu.
Jónas segir hafa orðið var við að eftir að Iceland Express seinkuðu flugtímum sínum frá klukkan 7 á morgnana til rúmlega 8 þá hafi færst í aukana að ferðamenn gisti á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að gista hér á Suðurnesjum. Hann segir það vera frekar slæmt og aukið samstarf milli flugstöðvarinnar og þeirra í ferðaþjónustu á Suðurnesjum gæti aukið heimsóknir ferðamanna til Suðurnesjanna.