Ferðamenn geta heitið ábyrgri ferðahegðun
- strax við komuna til Íslands
Í sumar mun Íslandsstofa ásamt samstarfsaðilum halda áfram með herferðina The Icelandic Pledge sem hvetur ferðamenn til að vinna þess heit að ferðast um landið með ábyrgum hætti. Hnappur hefur verið settur upp á Keflavíkurflugvelli í samstarfi við Isavia og varð ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, í dag fyrst til þess að ýta á hnappinn og heita því að vera ábyrgur ferðamaður. Ferðamenn geta nú heitið strax við komuna til Íslands að ferðast um landið með ábyrgum hætti.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra: „Með þessu er verið að reyna að hafa jákvæð áhrif á hegðun ferðamanna og upplifun þeirra á för sinni um Ísland þar sem oft og tíðum hafa þeir ekki þekkingu á aðstæðum. Þetta samstarf aðila er afar jákvætt og hefur gefist vel og því ánægjulegt að sjá að því sé haldið áfram.“
The Icelandic Pledge nær til átta atriða sem stuðla að ábyrgri ferðahegðun; að bera virðingu fyrir náttúrunni, að skilja við hana eins og komið var að henni, að keyra ekki utan vega, að koma sér ekki í hættulegar aðstæður við að taka myndir, að tjalda á viðeigandi tjaldsvæðum og að vera vel útbúinn á ferðalagi um Ísland. Verkefnið er unnið undir merki Inspired by Iceland en fólki býðst bæði að ýta á hnappinn við komuna til landsins og að strengja heitið á www.inspiredbyiceland.com/icelandicpledge
Í ár eru fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta með Festu og Íslenska ferðaklasanum sérstaklega hvött til þess að vekja athygli á heitinu með því að deila því á samfélagsmiðlum og vefmiðlum. Ásamt því mun Íslandsstofa dreifa The Icelandic Pledge borðspjöldum til fyrirtækja sem hafa áhuga á að hafa þau sýnileg fyrir gesti og viðskiptavini. Landsbjörg mun einnig dreifa yfir 3000 borðspjöldum með heitum beint til ferðamanna víða um land á SafeTravel deginum seinna í sumar.
Nú þegar hafa yfir 32.000 manns strengt heitið og koma þau frá yfir 100 löndum. Ísland var fyrsta landið til þess að bjóða gestum sínum að heita þess að ferðast um landið á ábyrgan og öruggan hátt og að ganga vel um náttúru landsins. Þetta framtak hefur vakið athygli erlendis bæði hjá fjölmiðlum sem og öðrum áfangastöðum með tilliti til sjálfbærni.
Íslandsstofa heldur utan um framkvæmd verkefnisins sem er unnið í samstarfi stjórnvalda og fyrirtækja. Helstu aðilar eru Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtök iðnaðarins, sem eru fulltrúar fjölmargra fyrirtækja ásamt Icelandair, Bláa lóninu og Landsvirkjun.
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Hlynur Sigurðsson framkvæmdastjóri viðskiptasviðs ISAVIA, Inga Hlín Pálsdóttir forstöðumaður hjá Íslandsstofu, Gunnar Stefánsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Þuríður Aradóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Reykjaness, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, Ketill Magnússon framkvæmdastjóri Festu – miðstöð um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja, Ásta Kristín Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans , Jón Skafti Kristjánsson markaðsstjóri Icelandair.