Ferðamenn eru hissa á fegurð svæðisins
Hjónin Ólöf Elíasdóttir og Arnar Sigurjónsson reka gistihúsið Berg í Reykjanesbæ. Eins og nafnið gefur til kynna þá er gistihúsið staðsett á Berginu með útsýni yfir smábátahöfnina. Þau bjuggu áður í húsinu sem er rétt um 700 fermetrar en ákváðu að hella sér út í rekstur gistihúss. „Við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í þegar við byrjuðum. Við hugsuðum að kannski kæmi bara enginn,“ segir Ólöf og hlær. „Við slógum bara til og ákváðum að prufa bara.“
Þau hjónin opnuðu í júní í fyrra og það hefur verið meiri umferð í ár heldur en í fyrra að þeirra mati. Það var í raun nóg að gera í fyrra og í raun kom það þeim á óvart hversu vel gekk.
„Það hefur verið fullt hérna alveg frá miðjum maí. Það hefur gengið ofsalega vel og við höfum verið mjög heppin með dóma sem við höfum verið að fá. “ Á vefsíðunni tripadvisor er Gistihúsið Berg að fá gríðarlega góða umsögn og fær þar frábæra einkunn frá gestum sem þar hafa dvalið.
Þau segjast verða vör við það að flestir þeirra gestir fari að skoða Suðurnesin, enda hvetja þau fólk eindregið til þess. „Fólki finnst þetta vera rosalega flott svæði, og í raun ekkert síðra en Gullfoss og Geysir og annað sem er í boði. Fólk er mjög hissa á þessu sem það sér hérna því það veit í raun ekkert um þetta svæði þegar það kemur hingað. Það heldur oft á tíðum að flugvöllurinn sé í Reykjavík,“ segir Arnar. „Þeir sem eru að stoppa hérna og skoða sig um eru frekar hissa. Það kemur fólki á óvart hvað það er mikið í boði hérna. Það veit yfirleitt ekki neitt um þetta svæði áður en það lendir hérna.“
„Þetta er svo lítið og allt þarf að styðja hvert annað. Það kannski vantar það að allir séu að berjast saman. Það vantar upp á afþreyingu hérna en allt annað er til staðar,“ bætir Ólöf við.
Skessan í hellinum er sívinsæl meðal ferðamanna að þeirra sögn og þá sérstaklega hjá yngri kynslóðinni. Þau telja þó að opnunartíminn mætti vera lengri þar. „Þar er opið frá 10 - 17 en þá eru flestir ferðamenn á flakki.“
Aðstaðan ekki nógu góð við Leifsstöð
Flestir gististaðir hérna á svæðinu eru að bjóða gestum sínum upp á þá þjónustu að keyra þá til og frá flugstöðinni og nýlega var skipulagi leigubíla og rútum breytt við Leifsstöð. „Þar var ekki gert ráð fyrir okkur. Alls staðar sem við erum að leggja og sækja okkar gesti þá erum við ólögleg eða á bannsvæði. Það er þó verið að vinna í þessu og finna lausn á þessu, því einhvers staðar þurfum við að vera.“