Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ferðamenn ánægðir í Reykjanesbæ
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 22. ágúst 2019 kl. 06:18

Ferðamenn ánægðir í Reykjanesbæ

Fegurð og gott viðmót heimamanna. Tæplega 600 þúsund sóttu bæinn heim árið 2018

Alls er talið að um 570 þúsund erlendir ferðamenn hafi heimsótt Reykjanesbæ árið 2018 þar sem rúmur helmingur þeirra kom á tímabilinu maí til september. Flestir heimsóttu staðinn vegna nálægðar hans við flugvöllinn og Bláa lónið en heimsóknin var einnig gjarnan hluti af lengri ferð um landið. Flestir komu frá Bandaríkjunum en dreifing búsetulanda var nokkuð jöfn meðal næstu sjö landa. Meðan á dvöl stóð var vinsælast að fara í náttúruböð, heimsækja söfn, fara í hvalaskoðun og smakka mat úr héraði. Þetta kemur fram í skýrslu með niðurstöðum ferðavenjukönnunar 2018 sem ferðamálastofa tók saman.


Ferðamenn voru almennt ánægðir með dvölina og á skalanum 1-5 mældist ánægjustigið 4,3. Um 52% ferðamanna töldust líklegir til að mæla með Reykjanesbæ sem áfangastað og meðmælaskor staðarins (Net Promoter Score - NPS) mældist +42. Það sem helst hvatti ferðamenn til meðmæla var fegurð staðarins þó staðsetning hans og viðmót heimamanna hafi einnig haft talsverð áhrif. Af þeim sem voru hlutlausir eða töldust ólíklegir til að mæla með staðnum sögðu flestir að of lítið væri um að vera og að auka þyrfti framboð afþreyingar og þjónustu á staðnum. Samgöngur og verð á ferðaþjónustu þyrftu auk þess að batna til að þeir yrðu líklegri til meðmæla. Meðalútgjöld ferðamanna á sólarhring mældust 18.400 kr. í Reykjanesbæ Útgjöldin voru hæst í flokki veitinga og matvöru. Í langflestum tilvika (78%) var megintilgangur ferðarinnar frí og ferðafélagarnir fjölskylda og vinir. Rúmur helmingur ferðamanna notaði vefsíður til að leita upplýsinga um Reykjanesbæ en um þriðjungur þeirra fékk upplýsingar frá vinum og ættingjum. Bretar og Bandaríkjamenn voru líklegri en aðrir til að nota vefsíður í upplýsingaskyni.

Flestir ferðamanna (36%) tengdu meginástæðu heimsóknar við flug eða flugvöll. Af þeim sögðu flestir nálægðina við Keflavíkurflugvöll hafa ráðið vali á áfangastað og allnokkrir voru í stopover á lengra ferðalagi. Um 16% sögðu heimsóknina vera hluta af heildarferð um landið og 7% nefndu sérstaklega Bláa lónið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Niðurstöður könnunarinnar gefa vísbendingu um stöðu ákveðinna þátta ferðaþjónustu í Reykjanesbæ sumarið 2018. Varast ber að alhæfa út frá niðurstöðunum þar sem um úrtaksrannsókn er að ræða en engu að síður eru þessar upplýsingar ásamt öðrum gögnum í ferðaþjónustu mikilvægt púsl í heildarmynd atvinnugreinarinnar á landsvísu. Athugasemdir og óskir ferðamanna sem koma fram í könnuninni auka einnig skilning á þörfum þeirra og upplifun meðan á dvöl stendur og eru mikilvægar fyrir svæðisbundna stefnumótun og uppbyggingu atvinnugreinarinnar. 

Skoða skýrsluna hér