Ferðamaður á hraðferð
Var að missa af flugi á 147 km hraða
Samtals 24 ökumenn hafa verið kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum það sem af er vikunni. Sá sem hraðast ók mældist á 147 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Um var að ræða erlendan ferðamann, sem kvaðst vera að missa af flugi. Hann greiddi sektina á staðnum.
Þá óku tveir ökumenn á nagladekkjum, þrír voru ekki í öryggisbelti við aksturinn, tveir töluðu í síma án þess að nota handfrjálsan búnað og tveir virtu ekki stöðvunarskyldu.