Fengu viðurkenningu Stígamóta fyrir störf
Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, Alda Hrönn Jóhannsdóttir lögreglufulltrúi og Berglind Eyjólfsdóttir rannsóknarlögreglukona fengu í gær aðgerðaviðurkenningu Stígamóta sem afhent var á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi.
Í tilkynningu fagna Stígamót því að eftir tíu ára baráttu séu mansalsmál nú loks tekin alvarlega og reglum og aðgerðaáætlun sem um þau gilda fylgt. Með átaki dómsmálaráðherra, lögreglustjóra á Suðurnesjum og fleiri hafi verið farið í umfangsmiklar aðgerðir til að fletta ofan af mögulegu mannsalsmáli.
Jafnréttisviðurkenningar Stígamóta voru sömuleiðis afhentar í gær. Þær hlutu Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fyrir skrif um kynferðisbrotamál, Ingibjörg Kjartansdóttir fyrir skrif um kynbundið ofbeldi og Fríða Rós Valdimarsdóttir sem er höfundur skýrslu Rauða kross Íslands um mansal, sem Stígamót segja hafa dregið fram skuggahlið á íslensku samfélagi sem sé forsenda þess að vinna bug á þessum alvarlegu glæpum.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.