Fengu tundurdufl í veiðarfærin
Skipsverjum á Sigga Bjarna GK brá heldur í brún þegar þeir voru að draga inn veiðarfærin út á Faxaflóa í gær því með aflanum kom feiknastórt tundurdufl. Var þegar haldið til lands með duflið eftir að það hafði verið bundið og skorðað kyrfilega því eins og menn vita geta slíkir gripir verið mikið skaðræði ef þeir reynast virkir. Duflið kom í veiðarfærin um 10 sjómílum frá Keflavík.
Sprengjusérfræðingar frá Landhelgisgæslunni biðu bátsins þegar í land var komið í Keflavík.
Af öruggisástæðum var áhöfnin látin yfirgefa skipið og bryggjunni lokað á meðan sprengusérfræðingarnir athöfnuðu sig við tundurduflið, sem er breskt að uppruna frá stríðsárunum.
Í duflinu var virkt sprengiefni en áhöfnin mun þó ekki hafa verið í hættu þar sem kveikbúnaður þess var óvirkur.
Myndatextar: 1: Tundurduflið komið á bryggjuna í Keflavík eftir að sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar gerðu það óvirkt um borð í Sigga Bjarna. 2: Tundurduflið um borð í Sigga Bjarna.
VF-myndir: Ellert Grétarsson.