Fengu 1000 norsk páskaegg fyrir mistök
– verða gefin kátum krökkum í íþróttahúsinu við Sunnubraut
Nettó pantaði fyrr á árinu páskaegg frá sælgætisverksmiðju í Noregi. Þegar eggin skiluðu sér í hús kom í ljós að 1000 egg í sendingunni höfðu skandinavíska merkingu og innihéldu norska málshætti. Þar sem málshættir skipta mestu máli þegar páskaegg eru annars vegar var ákveðið að eggin 1000 færu ekki í sölu, heldur yrðu gefin nú á síðustu metrunum fyrir páska.
„Okkur fannst rétt að leyfa fólki að njóta eggjanna, þó svo málshættirnir fari fyrir ofan garð og neðan,“ segir Ómar Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samkaupa, sem eiga og reka Nettó.
Málsháttur eins og „Sjaldan fellur unginn langt frá hænunni“ kom úr páskaeggi sem var opnað í viðurvist ljósmyndara. Eggin eru troðin af sælgæti frá bæði Haribo og Mikla.
Eggin 1000 verða gefin í dag í íþróttahúsinu við Sunnubraut í Keflavík. Það kom í hlut umsjónarfélaga Nettómótsins í körfubolta að dreifa eggjunum og hafist verður handa við að gefa eggin kl. 17 í dag.
Norskur málsháttur - hljómar betur á íslensku.