Féllu af baki í hrossarekstri

Lögreglumenn á Suðurnesjum voru í eftirlitsferð um helgina þegar þeir veittu athygli stóru hrossastóði, sem verið var að reka á Mánagrund í Keflavík og var það á mikilli ferð. Við nánari skoðun sáu þeir að tvö hross með hnökkum, en knapalaus,  voru á fleygiferð í rekstrinum. Hafði skyndilega komið styggð að hrossunum og þau tekið á rás með þeim afleiðingum að þau  runnu til í möl og knaparnir duttu af baki. 
Þegar að var gáð reyndist annar knapanna liggja á jörðinni og hinn var að huga að honum. Lögregla boðaði þegar sjúkrabíl á staðinn og var annar knapinn, kona um þrítugt, flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hún fékk aðhlynningu. 
Mynd úr safni VF.


 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				