Fella tré í gamla kirkjugarðinum
Nú er verið að fella áratuga gömul grenitré í gamla kirkjugarðinum við Aðalgötu í Keflavík. Trén eiga það flest sameiginlegt að vera illa haldin, þ.e. flestar greinar þeirra eru dauðar. Þá standa þau þétt saman og vöxtur þeirra hamlar öðrum gróðri á svæðinu. Með því að fella trén er einnig verið að hleypa meiri birtu inn í kirkjugarðinn.
Tré sem voru felld í morgun eru öll um og yfir 60 ára gömul. Búið er að merkja a.m.k. tíu tré sem verða felld í dag og á morgun.
Búið er að hafa samband við flesta aðstandendur þeirra leiða þar sem til stendur að fella tré. Þó hefur ekki tekist að hafa upp á öllum. Viðbrögðin hafa almennt verið góð, enda lítil prýði af illa förnum trjám.
Unnið að því að fella tré í kirkjugarðinum í morgun. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson