Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Féll útbyrðis af Hrafni GK og lést
Mánudagur 19. apríl 2010 kl. 12:54

Féll útbyrðis af Hrafni GK og lést

Sjómaður lést er hann féll útbyrðis af frystitogaranum Hrafni GK 111 á laugardagskvöld. Skipið var statt 67 sjómílur suðvestur af Reykjanesi þegar slysið varð og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út klukkan 22:42.


Erfiðlega gekk fyrir áhafnarmeðlimi að ná manninum aftur um borð. TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, fór í loftið klukkan 23:18 en stuttu síðar barst tilkynning frá skipstjóra Hrafns um að sjómaðurinn hefði náðst um borð og endurlífgun væri hafin.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í Morgunblaðinu í dag segir að þyrlulæknir hafi verið í stöðugu sambandi við skipstjóra togarans en þegar sigmaður og læknir komu um borð í togarann um miðnætti var maðurinn úrskurðaður látinn. Ekki er vitað um tildrög slyssins en rannsóknarnefnd sjóslysa mun hefja skýrslutökur í dag.


Frystitogarinn Hrafn GK 111 er í eigu útgerðarfélagsins Þorbjarnar í Grindavík. Ekki er hægt að skýra frá nafni hins látna að svo stöddu.


Mynd af vef útgerðar skipsins.