Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Féll gervihnöttur í hafið við Reykjanes?
Eins og sjá má er „fluglínan“ langt frá því að vera bein. Myndir: Ellert Grétarsson
Þriðjudagur 12. febrúar 2013 kl. 21:14

Féll gervihnöttur í hafið við Reykjanes?

Ellert Grétarsson náttúruljósmyndari náði hugsanlega einstökum ljósmyndum við Reykjanesvita í ljósaskiptunum í kvöld. Torkennilegar rákir á himni bentu til þess að eitthvað væri að falla til jarðar. Rákirnar voru þrjár, hver á fætur annarri.

„Ég var að koma úr gönguferð úr Stampahrauni nú síðdegis ásamt Guðsteini syni mínum þegar við tökum eftir því að það kemur eins og hvítur rani eða strókur niður úr einu skýinu á vesturhimni. Hann fór hratt stækkandi og síðan virtist hann slitna neðst. Endinn tekur síðan sveig til vesturs og nýr strókur myndast á eftir honum. Eftir stutta stund hverfur hann til vesturs, hallar samt aðeins í norðvestur að mér fannst. Stuttu síðar kemur annar svona strókur nema þessi fór beint og sömuleiðis sá þriðji sem fylgdi í kjölfarið. Eins og með fyrsta tilvikið þá virist endinn springa út úr halanum og mynda nýjan strók og skilja eftir sig ský. Þetta tók nokkrar mínútur,“ segir Ellert í samtali við Víkurfréttir.

Ellert segir rákirnar vera ráðgátu. „Ekki var þetta þoturák. Þær eru allt öðruvísi. Loftsteinar koma varla til greina, þeir fara miklu hraðar. Auk þess hafa engar fréttir verið af halastjörnum eða öðrum fyrirbærum, nema ef vera skyldi smástirni sem fer fram hjá jörðinni eftir þrjá daga, svo þetta tengist varla svoleiðis hlutum.

Þannig að eina líklega skýringin hlýtur að vera sú að þarna sé gervihnöttur að hrapa. Hugsanlega hefur hann þá brotnað upp sem útskýrir hvers vegna við sáum þetta þrisvar,“ segir Ellert og kallar eftir skýringum á því hvað þetta gæti verið.

Frummyndirnar hafa verið stækkaðar upp í mestu mögulegu stærð og þar sést engin þota framan við rákirnar. Nokkrar af myndum Ellert fylgja hér með og nú reynir á spekinga sem gætu upplýst þessa ráðgátu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þoturákir eða eitthvað allt annað?

Engin þota var sjáanleg framan við rákirnar nú síðdegis.

Myndir: Ellert Grétarsson