Félagsþjónustan með aukna þjónustu vegna efnahagsástandsins
Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar verður með opna móttöku á bæjarskrifstofunum, Tjarnargötu 12, alla virka daga frá kl. 13 - 15:30 þar sem íbúar geta komið og rætt við félagsráðgjafa og fengið ábendingar og stuðning á þeim umbrotatímum sem nú fara í hönd.
Fjölskyldu- og félagsþjónusta Reykjanesbæjar hefur á að skipa hópi menntaðra félagsráðgjafa sem hafa sérþekkingu í félagslegri ráðgjöf til fjölskyldna og einstaklinga. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að ræða ástandið í efnahagsmálum sem nú gengur yfir.
Að sögn Rannveigar Einarsdóttur yfirfélagsráðgjafa er mikilvægt að treysta böndin á umbrotatímum:
„Suðurnesjamenn hafa áður tekist á við áföll og niðursveiflur og komist uppréttir frá því. Við getum lært af reynslunni, sem sýnir okkur einna helst hvað það er mikilvægt að taka yfirvegað á mótlæti og leggja áherslu á jákvæðni, bjartsýni, samhug og kærleika, það er líklegra til að koma okkur yfir erfiðasta hjallann en bölsýni og áhyggjur. Mikilvægt er að hafa í huga að um er að ræða ástand sem gengur yfir og ef rétt er staðið að málum stöndum við sterkari eftir en áður," segir Rannveig.
Mynd: Margir hafa áhyggur af fjárhagslegri afkomu sinni og framtíðinni í því ófremdarástandi sem nú ríkir.