Félagsráðgjafar álykta vegna HSS
Á tímum þegar fjölmargir lenda í margvíslegum félagslegum erfiðleikum verður að tryggja getu Heilbrigðistofnunarinnar til að veita heildstæða og samþætta þjónustu, segir í ályktun sem Landshlutadeild félagsráðgjafa á Suðurnesjum hefur sent frá sér vegna niðurskurðarins sem stendur fyrir dyrum á HSS.
Ályktunin er svohljóðandi:
„Ályktun Landshlutadeildar félagsráðgjafa á Suðurnesjum vegna niðurskurðarhugmynda á HSS
Nú liggur fyrir að draga þarf saman í starfsemi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eins og í annarri opinberri starfssemi. Við slíkan samdrátt verður að gæta að því að hann bitni ekki á grunnþáttum starfseminnar. Félagsráðgjöf er órjúfanlegur þáttur í grunnstarfsemi HSS. Á tímum þegar fjölmargir lenda í margvíslegum félagslegum erfiðleikum verður að tryggja getu Heilbrigðistofnunarinnar til að veita heildstæða og samþætta þjónustu. Því varar stjórn Landshlutadeildar félagsráðgjafa á Suðurnesjum við því að staða félagsráðgjafa sé meðal þess fyrsta sem stjórnendur telji að fórna verði þegar starfsemin er dregin saman. Stjórnin lýsir sig tilbúna til viðræðna við stjórn HSS um mikilvægi þessa starfs og hvernig best sé að haga því í framtíðinni.
Rannveig Einarsdóttir,
formaður stjórnar Landshlutadeildar félagsráðgjafa á Suðurnesjum“