Félags- og menningarmiðstöð ungs fólks í Reykjanesbæ
Á bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður í dag verða teknar til umræðu tillögur frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins um að sett verði á stofn upplýsinga- og menningarmiðstöð fyrir ungt fólk í Reykjanesbæ. Í tillögunum er bent á þörfina fyrir slíka miðstöð sem myndi nýtast ungu fólki, jafnt sem samkomustaður en einnig staður fyrir margskonar starfsemi. Í tillögu Sjálfstæðisflokksins segir m.a.: „Fjölmargar hugmyndir eru uppi um nýtingu hússins og má þar nefna aðstöðu Vinnuskóla, bækistöð Útideildar, æfingaaðstaða fyrir unglingahljómsveitir, auk þess sem þar yrði nokkurskonar þjónustumiðstöð tómstunda fyrir alla grunnskóla bæjarins. Nýstofnað Tómstundabandalag Reykjanesbæjar, TRB, gæti haft í húsinu aðalbækistöð sína, en það telur nú 15 aðildarfélög me um 700 félagsmenn.“